Saga Korpúlfa

Þann 12. september 1997 var hleypt af stokkunum tilraunaverkefni í Grafarvogi. Þá var vígð hverfismiðstöð fyrir alla íbúa Grafarvogs, "Miðgarður" fjölskylduþjónusta Grafarvogsbúa, með það að markmiði að bæta og hagræða þjónustu við íbúa Grafarvogs með samræmingu á opinberri þjónustu í hverfinu. Auka um leið lýðræði með því að veita íbúum, fulltrúum félagasamtaka og starfsmönnum aukin áhrif á skipulag nánasta umhverfis og fyrirkomulag þjónustu Reykjavíkurborgar í hverfinu. Megináhersla verður lögð á þverfaglegt samstarf hinna mismunandi faghópa og jafnframt þróun nýrra leiða og vinnubragða sem bæta á þjónustu við íbúa hverfisins.

Með íbúalýðræði að leiðarljósi var ákveðið að senda út bréf til allra íbúa Grafarvogs 67 ára og eldri og boða til fundar í Foldaskóla 16. apríl 1998. Á fundinn mættu 23 þátttakendur, en þegar á reyndi voru aðeins 10 sem héldu áfram að taka þátt í starfinu, oft nefndir stofnfélagar Korpúlfa. Nafnið Korpúlfar varð til í kaffispjalli á Korpúlfsstöðum 1999, þar sem félagar hittust í aðstöðu Golfklúbbs Reykjavíkur á Korpúlfsstöðum. Félagið var skráð hjá Hagstofu Íslands í nóvember 2001 og fyrsta stjórn félagsins var kosin á fundi 15. mars 2000. Félagaskrá Korpúlfa kom út um haustið 2000 og voru þá skráðir 25 félagar. Í janúar 2008 voru félagsmenn 316 og hefur síðan fjölgað jafnt og þétt með ári hverju. Korpúlfur númer 1000 var skráður í félagið í desember 2021 og í nóvember 2022 eru félagsmenn 1120.

Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á hugmyndafræði um sjálfboðaliðastörf í Korpúlfum og að byggja félagsstarfið á hugmyndum og framtaki félagsmanna. Stefnt að því að félagið væri sjálfbært og með dyggum stuðningi Reykjavíkurborgar hefur það gengið eftir. En enginn félagsgjöld hafa verið greidd í Korpúlfa allt frá stofnun og flestir dagskráliðir gjaldfrjálsir.

Vorið 2005 fengu Korpúlfar aðstöðu fyrir félagsstarfið á Korpúlfsstöðum og síðan 17. maí 2014 var byggt framtíðarhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar í Spönginni 43 sem fékk nafnið Borgir. Þar er fjölbreytt starfssemi frá morgni til kvölds, matarþjónusta, kirkjustarf, fundaraðstaða, tónleikar, margs konar tómstundastarf, æskulýðsstarf, námskeið, félagsstarf, kaffihús og fleira.

Starfsskrá Korpúlfa kemur út á hverju hausti og með fjölgun félagsmanna hefur félagsstarfið aukist með hverju árinu og aðsókn oftast mjög góð á öll námskeið og viðburði. Við tökum fagnandi á móti hverjum nýjum félagsmanni og bjóðum alla hjartanlega velkomna í Borgir, þar sem gleðin býr.

Reykjavík, 11.11.2022,

Birna Róbertsdóttir,