Lög Korpúlfa

Lög Korpúlfa 1. sept. 2021.

Lög Korpúlfa, félags eldri borgara í Grafarvogi

1.grein

Heiti félagsins og heimili Félagið heitir Korpúlfar, félag eldri borgara í Grafarvogi. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein

Félagsaðild Félagar geta þeir orðið sem þess óska og eru búsettir í Grafarvogi og hafa að jafnaði náð 60 ára aldri. Félagsaðild fellur ekki niður sé þess óskað, þó flutt sé úr hverfinu. Við inngöngu er nýjum félögum afhent upplýsingagögn um starfsemi félagsins og þeim kynnt hugmyndafræði þess.

3. grein

Markmið Tilgangur félagsins er að bjóða upp á uppbyggjandi og fjölbreytt félagsstarf, þar sem flestir geta fundið vettvang við sitt hæfi. Fyrirbyggja félagslega einangrun með því að skapa góðan félagsanda, treysta vináttubönd, hvetja til frumkvæðis og sjálfstæðra athafna. Félagið skal standa fyrir áhugaverðri starfsskrá sem er í sífelldri mótun, háð hugmyndafræði og virkni félagsmanna hverju sinni. Almenna félagsfundi skal halda einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina.

4. grein

Stjórn og nefndir Stjórn félagsins skipa fimm menn og einn til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til eins árs. Varamaður skal kosinn til eins árs. Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir til eins árs. Enginn stjórnarmaður má sitja í stjórn lengur en fjögur ár samfleytt, þó með þeirri undantekningu að stjórnarmaður (ekki formaður) sem setið hefur í stjórn í allt að fjögur ár, er samt sem áður kjörgengur til formanns. Ný stjórn velur sér varaformann, gjaldkera og ritara úr sínum hópi. Stjórnin fer með allt framkvæmdarvald milli aðalfunda, meðferð fjármála, notkun húsnæðis og eigna félagsins. Stjórnin skal halda stjórnarfundi minnst einu sinni í mánuði yfir vetarmánuðina. Stjórninni til aðstoðar skal á aðalfundi kjósa fjórar nefndir til eins árs. Ferðanefnd, fræðslunefnd, skemmtinefnd og menningarnefnd. Nefndirnar skulu skipaðar þremur einstaklingum nema skemmtinefnd skipuð fimm einstaklingum. Nefndirnar skipta með sér verkum og starfa eftir þeim reglum sem gilda um nefndir Korpúlfa. Ákvarðanir sem fela í sér fjárútlát, skulu nefndirnar leggja fyrir stjórn félagsins til samþykktar. Nefndirnar skulu halda gerðabók og leggja fram til kynningar á sameiginlegum stjórnar og nefndarfundum. Stjórnin getur skipað nefndir til sérstakra verkefna sem hún ákveður hverju sinni, setja skal slíkum nefndum verklagsreglur.

5. grein

Uppstillinganefnd, framboð til stjórnar og nefnda Uppstillinganefnd, sem jafnframt er kjörstjórn félagsins skal skipuð fimm einstaklingum kosin á félagsfundi, eigi síðar en í lok nóvember til eins árs. Hún skal leggja fram lista sem inniheldur eftirfarandi : Nafn einstaklings til kjörs í sæti formanns, þegar það á við. Nöfn fjögurra einstaklinga í stjórn. Nafn einstaklings til kjörs í sæti varamanns í stjórn. Nöfn tveggja einstaklinga til kjörs í sæti skoðunarmanna reikninga. Nöfn þriggja einstaklinga í ferðanefnd, fræðslunefnd og menninganefnd. Nöfn fimm einstaklinga til setu í skemmtinefnd. Nefndin skal kynna tillögur sínar á heimasíðu félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Komi fram fleiri tillögur skal þeim skilað á skrifstofu félagsins eigi síðar en á hádegi daginn fyrir aðalfund. Skal þá fyrir aðalfund útbúa kjörseðla þar sem nöfn frambjóðenda eru birt í stafrófsröð og ná þeir kjöri sem flest atkvæði hljóta. Falli atkvæði jöfn skal dregið um sæti.

6. grein

Aðalfundur Aðalfundur skal haldinn í febrúar eða mars ár hvert. Stjórnin boðar til fundarins minnst viku fyrir aðalfundardag, með bréfi, tölvupósti, á vefsíðu félagsins eða með auglýsingu í dagblaði.

Á aðalfundi skal taka fyrir þessi mál :

a) Skýrsla stjórnar

b) Ársreikninga

c) Lagabreytingar, ef einhverjar eru, enda sér þeirra getið í fundarboði.

d) Stjórnarkosning

e) Kosning varamanns

f) Nefndakosning

g) Kosning tveggja skoðunarmanna

h) Önnur mál

7. grein

Lög félagsins Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur að breytingum skulu hafa borist stjórn félagsins í síðasta lagi 15. janúar. Tillögur skulu kynntar félagsmönnum með tölvupósti og einnig skulu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins. Þá skal vakin athygli á tillögunum á vefsíðu Korpúlfa og á Facebook síðu. Samþykki a.m.k. 50% fundarmanna þarf til að breytingar nái fram að ganga. Samþykkt á aðalfundi Korpúlfa 1. september 2021.